VERALDARHÚSIÐ: RITGERÐ UM ÍSLENSKA DULFRÆÐI

eftir Þorstein Antonsson.

Útg. Sigurjón Þorbergsson.

Reykjavík 1998. 96 bls.

SÍÐASTA INNSIGLIÐ: ÚR HEIMI EINHVERFRA eftir Þorstein Antonsson. Ormstunga 1998. 243 bls.

RITGERÐIRNAR í Síðasta innsiglinu og Veraldarhúsinu eru um margt forvitnilegar en einnig afar sérkennilegar.

Þótt hugleiðingar Þorsteins hafi á sér fræðilegt yfirbragð og form er greinilegt að hann hefur engan áhuga á því að halda því til streitu: Andinn í skrifum Þorsteins er í senn nútímalegur (vísindalegur) og forn (trúarlegur/dulfræðilegur): þ.e.a.s. and-módernískur. Skrifin einkennist þannig af "póstmódernísku næmi": átökum skynsemi og dulúðar; samkrulli vísindahyggju og "dulfræða", upplýsingar og fjölhyggju (fjölkunnáttu).

Enda er tilgangur höfundar, a.m.k. í Veraldarhúsinu , með vísun til skrifa Benedikts Blöndals, að "móta íslenska dulfræði" sem gæti fengið "þversagnir lífsins til að ganga upp." (8). Hvorki meira né minna. Ritgerðirnar átján í Veraldarhúsinu fara út um víðan völl. Í þeim er m.a. að finna menningar- og þjóðfélagsrýni; hugleiðingar um fjölskylduna, karlveldið, vitundarsviðið og trúarheimspeki. Þrátt fyrir þá yfirlýsingu höfundar að í "nútímanum verði að fjalla af þekkingu, samkvæmt strangri aðferð, um hvert mál, svo guða sem manna" er stundum erfitt að henda reiður á fullyrðingum höfundar og samhengi þeirra. Ekki svo að skilja að skrifin séu algerlega í einni bendu og tómt bull; í þeim er urmull af skemmtilegum og glöggum athugasemdum, frjóu innsæi og skarpri samfélagsgagnrýni sem hægt er að taka undir af heilum hug. En þegar verst lætur verður textinn einum of "nýaldarlegur" í afdráttarlausum staðhæfingum sínum, og synkretisma eða hugmyndasamkrulli. Textinn grefur (viljandi?) undan sjálfum sér í sífellu með því að blanda saman málfari (og "rökum") trúar og vísinda.

Í augum Þorsteins eru orðræður vísindalegra rannsókna og trúarlegrar innlifunar aðeins mismunandi en jafngild táknmál yfir tilveruna og mannlegt hlutskipti ­ hvorugt stendur nær sannleikanum en hitt: "Álitsmunur sá einn hvor leiðin sé gagnlegri, Krists eða síðari tíma vísinda til að koma á tilveruna mennskri mynd." Kannski mætti segja sem svo að dulfræði Þorsteins byggi á goðsagnlegri hugsun sem stefnir að "dulvísi" (eða "umræð(u) um hið óumræðilega") sem veiti "nýja og skarpari sýn í hið gamalkunna og hversdagslega."(9). Helsta gagnrýnin á Veraldarhúsið hlýtur að vera sú að textinn er of yfirlýsingakenndur, alhæfandi og smættandi. (T.d. "Menn hafa alltaf greinst í tvo andstæða hópa eftir upplagi sínu og náttúruþörfum, samkeppnis- og samvinnusinna . . ." (15)).

Ætla má að slíkur ágalli hefðbundinnar tvíhyggju vinni gegn tilætlaðri dulvísi. Svipuð gagnrýni á við um Síðasta innsiglið en bókin er ekki jafn heimspekilega sinnuð og er áhugaverðari fyrir vikið. Umfjöllunarefnið er, að því er virðist í fyrstu, fræðileg úttekt á einhverfu og sérstaklega á svokölluðu Asperger-heilkenni (Asperger syndrome) en þeir sem því eru haldnir eru sagðir "sjálfbjarga einhverfir".

Þorsteinn setur fram skilgreiningar á fyrirbærinu í inngangi, eykur svo við einkennalistann í rás bókarinnar og tiltekur dæmi um meintar sjálfbjarga einhverfar persónur. Sumir kaflarnir eins konar sjúkdómssögur. Líkt og Veraldarhúsið er Síðasta innsiglið í aðra röndina umsögn og einkenni á menningarástandi ­ hinu póstmóderníska hlutskipti. Í því felst m.a. að "(s)érviska og sérfræði eru nú orðið óaðgreinanleg", eins og Þorsteinn kemst sjálfur að orði (12). Í samræmi við þetta blandar Þorsteinn sjálfsævisögulegum þáttum inn í "fræðin".

Hið persónulega litar textann, nær yfirhöndinni og gerir hann áhugaverðan. Þannig væri jafnvel hægt að líta á Síðasta innsiglið sem póstmóderníska skáld- eða sjálfsævisögu. Skáldævisögu og fræðirit í senn; skáldfræði-ævisögu; skáldfrævisögu; þar sem hver hugdettan frjóvgar aðra og sáir sér; þar sem höfundur vílar ekki fyrir sér að setja saman vísindalega og trúarlega orðræðu sem hliðstæðar skýringar í bland við persónulegar játningar. Eins og Þorsteinn segir sjálfur í inngangi, fjallar Síðasta innsiglið "á persónulegan, ævisögulegan hátt um vangetu til félagslegrar aðlögunar og þroskatruflanir sem af henni leiða."

Og bókin er tilraun, segir hann, til að miðla "jafnt leikum sem lærðum af yfirgripsmikillli persónulegri reynslu sem ég hef öðlast um dagana af mannlífi á mörkum einhverfu." Hreinskilni Þorsteins er allt að því óþægileg á köflum. Í kafla sem ber heitið "Á svörtu nótunum" greinir Þorsteinn sjálfan sig og hlífir sér hvergi. Annars staðar segir hann frá föður sínum, uppeldi og æsku. Móðir hans fær einnig sérstakan kafla og vægðarlausa greiningu. Um hana segir Þorsteinn m.a. "Mister Bean er hversdagslegur í samanburði við móður mína," svo saklaus samlíking sé valin.

Hliðstæðu trúar og vísinda má sjá í titlinum sjálfum þar sem hvort tvegga er vísað í opinberun (síðasta/sjöunda innsiglið) og vísindalega skilgreiningu (heimur einhverfra). En hún er líka hvarvetna í textanum. Á síðu 107 segir: "Núorðið lít ég svo á að guð hafi gefið mig og nokkra aðra menn af minni kynslóð og öðrum kynslóðum fyrr og síðar með því að firra okkur getunni til félagslegrar samstillingar og þar með samkenndar um ábyrgð og sekt!"

Í næstu málsgrein á eftir segir: "Ég veit núorðið að æðið er efnafræðileg, arfbundin, truflun í sjálfvitundinni." Í næstsíðasta kaflanum, "Stjórnstöð", nær síðan vísindahyggjan hámarki en þar er einhverfa vafningalaust rakin til litla heila, eða til þess að hann starfi ekki með skilvirkum hætti (225). Upptalning á meintum sjálfbjarga einhverfum er fyrirferðarmikil og kennir þar ýmissa grasa: Mozart, Michel Foucault, Sölvi Helgason, Gulliver (og kannski höfundur hans líka, Swift), Eiríkur Laxdal (sem skrifaði fyrstu íslensku skáldsöguna, þá mögnuðu Ólafs sögu Þórhallasonar, sem Þorsteinn sjálfur uppgötvaði, kom á framfæri og breytti þannig íslenskri bókmenntasögu), Strindberg og Ingmar Bergman, Steinn Steinarr, Wirginia Woolf, Proust, Faulkner, Kafka, Don Kíkóti (og kannski Cervantes), Poe, Lautréamont, Rimbaud, Mallarmeé, Joyce, Beckett, Camus, Vigdís, Þórunn, Megas, og auðvitað Þórbergur Þórðarson.

Þorsteinn segist á einum stað ætíð hafa "svarað þörf sinni fyrir afbrigðilegan félagsskap" og á þá einkum við samskipti við utangarðsfólk sem honum "finnst" haldið sömu einkennum einhverfu og hann. Þannig segir hann af skiptum sínum við S. (sem gaf út bókina Dómsmorð ) og fleiri sem lent hafa upp á kant við lögin.

Steinar Sigurjónsson er einnig greindur með Aspergers-heilkenni í sérkafla sem heitir "Ljúflingur", skemmtilega skrifuð og falleg eftirmæli um utangarðsskáldið. Það er engin leið að ná utan um þessa tyrfnu og að sumu leyti mögnuðu bók í stuttum ritdómi.

Gildi hennar felst e.t.v. einkum í þeim persónulegu og sjálfsævisögulegu þáttum sem teygja sig út um alla frásögnina. Um vægi bókarinnar fyrir umræðu um einhverfu getur undirritaður ekki dæmt en "fræðilegu" umfjöllunina hefði mátt stytta allverulega án þess að hún hefði orðið óskýrari fyrir vikið.

Hugtakið "sjálfbjarga einhverfur" virðist í leikmanns augum ákaflega víðfeðmt, eins og það er notað í bókinni. Það liggur við að það dugi sem samheiti á "mannlegu hlutskipti" og við séum þar með öll að meira eða minna leyti "sjálfbjarga einhverf".

Geir Svansson

Þorsteinn Antonsson