Viðtal í Bæjarins Besta Ísafirði um Höfundarsaga Mín (2002)
Bæjarins Besta - vikublaðið
Nýlega kom út hjá Vestfirska forlaginu minningabók Þ. A. rithöfundar eftir hann sjálfan. Bókin, sem heitir Höfundarsaga mín, fjallar einkum um höfundarferil Þorsteins, eins og nafnið bendir til, og spannar um aðalefni rúmlega aldarfjórðung. Reyndar rekur höfundur sögu sína allt til unglingsáranna um og upp úr miðri síðustu öld, gerir grein fyrir bernskureynslu sem hann telur rætur rithneigðar sinnar. En áður en fleira er sagt langar mig að víka að bókinni sjálfri og spyrja höfund: Er það ekki nýstárlegt að höfundur leiti vestur á firði til að gefa út höfundarsögu sína sem ekki getur talist sérstaklega vestfirsk að uppruna?
Bók mín er prentuð í Reykjavík, hjá Odda, en kennd við Hrafnseyri við Arnarfjörð og Vestfirska forlagið sem kostar útgáfuna og sér um dreifingu. Bækur mínar hafa ekki hingað til tengst einu forlagi fremur en öðru og líklega er það hending ein að Vestfirska forlagið gefur bókina út, þótt ég hafi verið búsettur um tíma fyrir vestan. Ég er stoltur af því, að bók mín skuli koma út hjá vestfirsku forlagi en ekki einhverju hinna kunnari útgáfa án þess að ég sé með neina rekistefnu gegn þeim. Ég minni á að hér vestur á fjörðum hafa alltaf varðveist skilyrði til róttækrar endurnýjunar í þjóðlífinu hvað sem efnahag líður. Hingað kom Halldór Laxness upp úr 1930 til að losna frá fortíðarvanda sínum og ístöðuleysi í skrifum á ungdómsárum, sótti sér kjölfestu eftir ameríkudvölina og fór aftur að vestan nýr maður; sá sem við þekkjum best. Vesfirska forlagið hefur heimilisfesti á Hrafnseyri við Arnarfjörð, fræðasetri þaðan sem Jón Sigurðsson er upprunninn og Jón hefði víst ekki orðið þjóðinni það sem hann varð ef ekki hefði verið fyrir vesfirska upprunann, þá heilbrigðu raunvísi og getuna til að komast vafningalaust að niðurstöðu sem einkenndi hann á stjórnmálatíð hans. Mín pólitík hefur aldrei verið önnur en hin frjálslynda íhaldsemi Jóns forseta og Laxness á efri árum, liberalisminn sem hefur dugað þjóðinni betur en aðrar stefnur. Að vestan kom Ólafur Ragnar og hefur haft meiri áhrif en almennt er talið með því að sameina með persónu sinni pólitískar andstæður kaldastríðsáranna sem orðnar voru marklausar. Og Ísfirðingurinn Einar Kárason innleiddi hversdagsraunsæi í málefni rithöfunda á formannstíð sinni í Rithöfundasambandinu. Bók mín er uppgjör við breytta höfundapólitík í þjóðfélagi okkar; skyldur rithöfunda eða hvort þær séu nokkrar.
Svo við snúum okkur að efni bókar þinnar nú. Þú hefur komið víða við á höfundarferlinum eftir henni að dæma og ferð ansi hispuslausum orðum um menn og málefni bæði nú og áður.
Afdráttarleysið er vaxandi einkenni í þjóðlífinu, mitt sem annarra manna. Áherslan í borgaraþjóðfélaginu er á að hver um sig lifi einkum fyrir sjálfan sig og sé sjálfum sér trúr. Auk þess hlýtur sama þróun að vera í gangi í íslenska þjóðfélaginu og allstaðar í nágrannalöndunum þar sem ólíkir hagsmunahópar verða að koma sér saman, ekki bara af fjölmenningarlegum ástæðum sem þið þekkið vel hér á Ísafirði heldur líka vegna hins, hve fólk er ólíkt þótt sé af sama þjóðerni. Í heimi nets og fjölmiðla verðum við að lærða að una við margskonar sjónarhorn á sömu atburði.
Þú bjóst hér fyrir vestan, á Ísafirði á árunum frá 1991-96 og kenndir m.a. við menntaskólann. Eru einhverjar þeirra bóka sem um er fjallað í Höfundarsögunni skrifaðar á því tímabili?
Já, sú um Geirfinnsmálið. Einnig setti ég saman bók með þjóðlegum fróðleik og greinasafn sem heitir í Faðmi fjallkonunnar með tilvísun á þáverandi eiginkonu mína.
Þú segir í bókinni, sem hér er til umræðu, útgáfusögu bókar þinnar um Geirfinnsmálið. Þú færir rök að því, að sú endaleysa öll sem þau mál hafa orðið þjóðinni sé afleiðing þess, að íslenska þjóðin hafi til þessa ekki viljað kannast við sérþarfafólk í sínum hópi eða sérþarfir þess. Ef þetta er rétt skilið er þá álit þitt að rithöfundar séu slíkt sérþarfafólk?
Heimildasaga mín um Geirfinnsmálið er heilmikil stúdía í því, hvort okkur sé stætt á að ætla öllum þann veruleika sem við lifum í sjálf. Skáldsögur og ljóð eiga sér það erindi helst að bera fyrir fólk sannleika sem kynni að koma höfundinum í koll ef sagður væri með afdráttarlausari hætti. Skáldskapurinn er því aðferð manns til að vera í senn bæði innan og utan velsæmismarka sem í gildi eru á hverjum tíma. Og þá í gervi skálds en ekki sem prívatmaður. Í þessum skilningi er alvöruskáld alltaf sérþarfa- og utangarðsmaður. Þegar engin hætta fylgir því lengur að segja sannleikann, hver svo sem hann er, þá er að mínu áliti orðið lítið tilefni til annars en fara beint að hlutunum, eins og ég geri með Höfundarsögu minni, telji maður sig eiga eitthvað óuppgert. Sama gildir um nokkrar aðrar bækur á ferlinum, ég nefni þá um einhverfu og aðra um skyggni.
Er ekki hætt við að fyrir manni, sem svo afdráttarlaust fjallar um atburði líðandi stundar, sem þú gerir með bók þinni, fari eins og manni sem stígur út úr bíl á hraðbraut og hygst stjórna umferðinni af eigin rammleik? Hún heldur áfram með sama hætti og áður. En hann á augljóslega á hættu að verða ekinn niður!
Ég leitaði til fólks af ólíkum stigum þjóðfélagsins og fékk það til að lesa handritið yfir, áður en ég bar það fyrir útgefanda, og reyndi eftir bestu getu að meta athugasemdir að verðleikum.
Ég efa það ekki, að þú hafir lagt mikla vinnu í bókina! Hún er að því leyti til afar óvenjuleg meðal minningabóka, að hún greinir með aðgengilegum hætti frá umbreytingum sjálfs þín á höfundarferlinum.
Lífið er mér raðþraut og Höfundarsagan áfangi á leiðinni að niðurstöðu. Mikilvæga hluta hennar fann ég hér fyrir vestan.